Um okkur

Reykjabúið í Mosfellsbæ er elsta starfandi alifuglabú landsins. Það er fjölskyldubú í eigu Jóns Magnúsar Jónssonar og Kristínar Sverrisdóttur bænda á Reykjum. Höfuðstöðvar Reykjabúsins eru á bænum Suður-Reykjum í Mosfellsbæ í fallegu og gróðursælu umhverfi við rætur Reykjafjalls og eru þau Jón Magnús og Kristín þriðja kynslóðin sem ræktar þar fugla. Í dag er rekstur Reykjabúsins tvíþættur; annars vegar stofnrækt fyrir kalkúna og kjúklinga Ísfuglsbænda og hins vegar eldi kjúklinga og kalkúna. Á Reykjum er síðan heimasala sem selur kalkúnaafurðir beint til neytenda. Síðasta viðbótin við rekstur þeirra hjóna var svo þegar þau tóku alfarið yfir rekstur Ísfugls árið 2012. Ásamt því að búa með alifugla stundar fjölskyldan hestamennsku og á fáeinar kindur.

Starfsemi Reykjabúsins

Reykjabúið framleiðir fyrst og fremst kalkúna- og kjúklingakjöt. Á Reykjum í Mosfellsbæ er haldinn kalkúna- og holdastofn til framleiðslu frjóeggja. Í útungunarstöð Reykjabúsins að Flugumýri 18 í Mosfellsbæ er ungað út kalkúnum og kjúklingum til eigin framleiðslu og fyrir aðra bændur sem framleiða kjúklinga fyrir Ísfugl.

Saga Reykjabúsins

Á Suður-Reykjum í Mosfellsbæ er löng saga alifuglaræktar og þar er elsta bú landsins í greininni. Suður-Reykir hafa verið í eigu sömu fjölskyldna frá því árið 1916 þegar Guðmundur Jónsson, afi Jóns Magnúsar Jónssonar, núverandi ábúanda, keypti jörðina.