Starfsemi Reykjabúsins

Jón Magnús er fæddur á Suður-Reykjum þar sem fjölskylda hans hefur stundað alifuglarækt síðan á fyrri hluta síðustu aldar. Kristín er Reykvíkingur og kynntist sveitastörfum frá barnsaldri hjá móðursystur sinni á Oddgeirshólum í Flóa. Börn þeirra eru Hrefna, María Helga, Jón Magnús og Sverrir. Bæði stunduðu þau hjónin nám við framhaldsdeild Bændaskólans á Hvanneyri en Jón Magnús lauk svo BS-gráðu í alifuglarækt í Madison, Wisconsin í Bandaríkjunum. Kristín lauk aftur á móti BS-gráðu í almennri búfjárrækt frá Hvanneyri.

Reykjabúið framleiðir fyrst og fremst kalkúna- og kjúklingakjöt. Á Reykjum í Mosfellsbæ er haldinn kalkúna- og holdastofn til framleiðslu frjóeggja. Í útungunarstöð Reykjabúsins að Flugumýri 18 í Mosfellsbæ er ungað út kalkúnum og kjúklingum til eigin framleiðslu og fyrir aðra bændur sem framleiða kjúklinga fyrir Ísfugl. Reykjabúið hefur tekið á leigu ónotuð gripahús og innréttað fyrir fuglaeldi hjá nokkrum bændum. 

Eldishús fyrir kalkúna og kjúklinga eru að mestu í Ölfusinu; á bæjunum Bakka, Auðsholti, Lambhaga og Hjalla. Einnig á Heiðarbæ II í Þingvallasveit, í Sandgerði, Helludal í Biskupstungum og Sætúni á Kjalarnesi. Starfsmenn Reykjabúsins eru fimmtán manns í misháum stöðugildum, að Jóni og Kristínu meðtöldum, og á álagstímum bætist í hópinn.

Ársframleiðsla Reykjabúsins er um 1.400 tonn af kjúklingi og 360 tonn af kalkún. Öllum fuglum Reykjabúsins er slátrað undir ströngu eftirliti heilbrigðisyfirvalda í sláturhúsi Ísfugls í Mosfellsbæ. Þar er allt kjöt unnið, pakkað og selt undir vörumerkjum Ísfugls. Reykjabúið er stærsti framleiðandi Ísfugls. Reykjabúið sér sjálft um að selja alla heila kalkúna.

Höfuðstöðvar búsins, skrifstofa og afgreiðsla er á Reykjum. Á Reykjum er einnig heimaverslun þar sem seldar eru ýmsar kalkúnaafurðir.

Kalkúnarnir okkar

Eigendur Reykjabúsins leggja allan metnað sinn í að framleiða gæðavöru og standa heiðarlega að kjötframleiðslunni. Til þess að framleiða góða vöru þarf að huga vel að hreinlæti og velferð fuglanna. Kalkúnarnir okkar eru allir aldir upp á gólfi í litlum húsum þar sem bóndinn hefur góða yfirsýn yfir hópinn og smitálag er lítið. Við gætum sérstaklega að hreinlæti og góðri umgengni hjá fuglunum, en stöðugt aðgengi þeirra að góðu fóðri og hreinu neysluvatni er nauðsynlegt.

 

Við gefum fuglunum okkar ekki fúkkalyf eins og mikið er gert í kalkúnaeldi víða á meginlandi Evrópu. Lögð er áhersla á að vel sé farið með þá allt frá því þeir koma úr eggi og þar til þeim er slátrað.

Þar er hið góða og samviskusama starfsfólk sem Reykjabúið hefur á að skipa í lykilhlutverki. Starfsfólkið fær reglulega þjálfun og fræðslu þannig að það sé sem best í stakk búið til að sinna störfum sínum á búinu. Reykjabúið starfar undir ströngu eftirliti Matvælastofnunar.