Saga Reykjabúsins

Suður-Reykir í Mosfellsbæ koma fyrst fyrir í heimildum árið 1180 og hefur verið ábúð þar síðan á miðöldum. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir að hjáleigur Suður-Reykja hafi verið þrjár: Reykjakot, Stekkjarkot og Amsturdammur. Síðar hefur svæðið verið nefnt Reykjahverfi „sunnan undir Reykjafjalli“ (m.a. í Lýsingu Mosfells- og Gufunesssókna frá 1855), og er svo í dag. Búskapur er enn að Reykjum, en hjáleigurnar eru nú íbúðahverfi og dýrahald þar takmarkað við hross, hunda, ketti og kannski eina og eina varphænu.

 

 

Þekking berst frá vesturheimi

 

Löng hefð er fyrir fuglarækt á Reykjum. Stefán B. Jónsson átti jörðina og bjó þar á árunum 1907-1913. Hann hafði á árunum 1887-1899 búið í Kanada og kynnst þar alifuglarækt. Stefán var mikill framfarasinni og áhugamaður um alifuglarækt og fleira. Eitt af hans áhugamálum var að nýta jarðhita í Reykjahverfi, og var hann fyrstur Íslendinga til að leiða hitaveitu í íbúðarhús sitt að Suður-Reykjum. Árið 1901 skrifaði Stefán grein um hænsnarækt í blaðið Hlín: tímarit til eflingar verkfræðilegs og hagfræðilegs framkvæmdalífs á Íslandi, sem hann sjálfur út (1. tbl. s. 42-44).

 

Í greininni segir hann m.a að hænsna- eða alifuglarækt ætti að vera almennari og betur stunduð hér á landi en hingað til hafi verið. Hann hvetur gaf sjálfur út (1. tbl. s. 42-44). Í greininni segir hann m.a að hænsna- eða alifuglarækt ætti að vera almennari og betur stunduð hér á landi en hingað til hafi verið. Hann hvetur Íslendinga til að taka upp þennan hagkvæma búskap, og spyr í lok greinar: „Gefur nokkur búpeningur á Íslandi af sér árlega meira en svarar 180% af verði sínu, auk fóðurkostnaðar? – Eg held ekki, og sé svo, þá sinnið með alúð alifuglarækt meira en hingað til.“

 

Ef tekið er mið af skrifum um alifuglarækt fyrr á árum er ljóst að þekking á búgreininni hefur borist til Íslands frá Vesturheimi á síðustu árum 19. aldar. Alifuglarækt hefur þó verið stunduð hér frá landnámi í einhverjum mæli, og er þess getið í fornsögum; m.a. í sögu af gæsagæslu Grettis sterka Ásmundarsonar og í Hænsa-Þóris sögu.

 

 

Brautryðjendur að Suður-Reykjum

 

Á Suður-Reykjum í Mosfellsbæ er löng saga alifuglaræktar og þar er elsta bú landsins í greininni. Suður-Reykir hafa verið í eigu sömu fjölskyldna frá því árið 1916 þegar Guðmundur Jónsson, afi Jóns Magnúsar Jónssonar, núverandi ábúanda, keypti jörðina. Stórbýli hefur verið rekið þar síðan um 1930, og má segja að stöðug uppbygging hafi átt sér stað á búinu allt frá því Guðmundur handsalaði kaupin á jörðinni.

 

Reykjabúið er fjölskyldubú þar sem þekking og framþróun eru lykilatriði í rekstrinum. Búið er brautryðjandi í alifuglarækt á Íslandi. Þar hófst kjúklingarækt árið 1946 og kalkúnarækt í tilraunaskyni 1947. Stuttu síðar var farið að framleiða daggamla unga til sölu, og því má með sanni segja að reksturinn standi föstum fótum á reynslu, þekkingu og framsýni.

 

Umhverfismál skipa æ stærri sess í búrekstri, og á því sviði hafa Reykjabændur metnað til að vera til fyrirmyndar. Nýverið var tekin í notkun gæðastefna Reykjabúsins sem vísar veginn á því sviði í alifuglarækt.

Stiklur í sögu Reykjabúsins