Kalkúnninn fylltur

Eitt af því sem gerir matreiðslu á kalkún skemmtilega er að hægt er að fylla hann á fjölbreyttan hátt.

Fyllingu má útbúa daginn áður og geyma í kæli – og einnig er hægt að útbúa sumar tegundir fyllinga ennþá fyrr og geyma í frysti. Gott er að útbúa ríflegan skammt af fyllingu og baka það sem ekki fer inn í fuglinn í ofnföstu formi í 40-50 mín. og bera síðan fram ásamt öðru meðlæti.

Áður en fuglinn er fylltur þarf að hreinsa hann, þerra og nudda með hálfri sítrónu að utan og innan. Margir setja hluta af fyllingu undir hálsaskinnið að framan og sauma fyrir gatið eða loka því með tannstönglum eða steikarprjónum. Síðan er kalkúnninn fylltur. Best er að sauma fyrir en einnig er hægt að hnoða saman álpappír og setja í opið. Hafa skal hugfast að flestar fyllingar bólgna út við steikingu, og því má ekki troðfylla fuglinn. Einnig þarf að hafa í huga að fyllingin lengir steikingartímann. Að lokum er fuglinn nuddaður með salti og pipar og smjörklípur settar á hann hér og þar.

Meistarakokkurinn Úlfar Finnbjörnsson útskýrir hér í máli og myndum hvernig hann fyllir kalkún. Karl Petersen ljósmyndari á heiðurinn af myndunum, sem eru úr Stóru alifuglabókinni.

Aðferð
1 Skref
Takið pokann með innmatnum og hálsinum innan úr fuglinum og notið í soð (sjá bls. 222-3), ásamt vængendunum. Nú má leggja fuglinn í kryddpækil.
2 Skref
Skerið vængendana af við 2. liðamót.
3 Skref
Þerrið fuglinn vel að innan og utan.
4 Skref
Smeygið hendinni varlega á milli bringunnar og hamsins.
5 Skref
Losið haminn frá alveg að hálsi, vængjum og lærum.
6 Skref
Sprautið kryddsmjöri undir haminn.
7 Skref
Jafnið smjörið vel.
8 Skref
Setjið fyllinguna inn í fuglinn.
9 Skref
Bindið leggina saman með seglgarni.
10 Skref
Penslið fuglinn með smjöri.
11 Skref
Stráið salti og pipar yfir. Nú er fuglinn tilbúinn fyrir eldamennsku.