Afgangar

Það er notalegt til þess að hugsa að daginn eftir kalkúnaveisluna er hægt að hita upp afganga. Einfaldast er að setja niðurskorið kjöt í eldfast fat, breiða yfir það álpappír og hita kjötið upp í ofni á meðan sósan er hituð í potti. Þá er aftur tilbúin veislumáltíð með lítilli fyrirhöfn.

Einnig er hægt að elda sérstaka rétti úr afgöngunum, hita kjöt í sósu eða borða kjötið kalt.

Kalkúnakjöt er milt á bragðið og hentar því í fjölbreytta rétti með alls konar kryddblöndum og eldunaraðferðum. Það er mjög gott í austurlenska rétti, bæði sterkkryddaða og aðra, sem álegg á brauð og í samlokur og margt fleira. Það er í raun aðeins ímyndunaraflið sem takmarkar notkunarmöguleikana.