Reykt kalkúnabringa með hnetuhjúp og rauðvínssósu

Uppskrift

Fyrir 3–4

Hráefni

1 reykt, beinlaus kalkúnabringa u.þ.b. 800 g
2 dl rauðvín, má vera óáfengt
1 lárviðarlauf
1/2 tsk. timían
1/2 tsk. rósmarín
1 tsk. tómatmauk (purée)
3 dl vatn
svartur pipar
1 msk. balsamikedik
sósujafnari
40 g smjör
kjúklingakraftur (ef vill)

Hnetuhjúpur
1 bolli blandaðar hnetur
1 msk. hunang
1 msk. Dijonsinnep
1 msk. appelsínumarmelaði
1 msk. hnetusmjör

Aðferð

1. Setjið bringuna í pott ásamt rauðvíni, lárviðarlaufi, timían, rósmarín, tómatmauki, vatni og pipar og sjóðið undir loki við vægan hita í u.þ.b. 30 mín. eða þar til 70°C kjarnhita er náð.
2. Takið þá bringuna úr pottinum og setjið í eldfast mót.

3. Saxið hneturnar lítið eitt og blandið öllu sem á að fara í hjúpinn saman. Hyljið bringuna með hjúpnum og setjið í 200°C heitan ofn í u.þ.b. 10 mín. eða þangað til hann verður fallega brúnn.
4. Á meðan bringan er í ofninum er soðið sem er í pottinum þykkt með sósujafnara. Bragðbætið með pipar, balsamikediki og e.t.v. með kjúklingakrafti. 5. Að síðustu er potturinn tekinn af hellunni, smjöri bætt í sósuna og hrært í með þeytara þangað til smjörið hefur bráðnað. Eftir það má sósan ekki sjóða (réttinn má bera fram kaldan með heitri sósu).
6. Borið fram með steiktum sætum kartöflum og blönduðu grænmeti.