Eplafylling Hilmars B. Jónssonar

Uppskrift

Hráefni

Fyrri hluti
700 g meðalfeitt svínahakk
1 msk. salt
1 tsk. timían
1 tsk. salvía
1 tsk. múskat
1/2 tsk. pipar
1/2 tsk. allrahanda
1/2 dl koníak

Seinni hluti
1/2 franskbrauð, skorið í teninga og þeir ristaðir létt í ofni
100 g smjör
6 græn epli, afhýdd, kjörnuð og skorin í teninga
2 saxaðir laukar
2 sellerístönglar, skornir í bita
2 búnt fersk steinselja, söxuð
1 tsk. salvía
2 tsk. timían
1 tsk. salt
nýmalaður pipar

 

Aðferð

1. Blandið öllu í fyrri hluta uppskriftarinnar saman í stórri skál. Færið síðan yfir í minni skál, breiðið plastfilmu yfir og geymið í ísskáp yfir nótt.
2. Næsta dag er rúmur helmingur af smjörinu bræddur á pönnu. Þá er farsið úr skálinni sett á pönnuna og það marið með gaffli þar til það hefur losnað vel í sundur. Hitað þar til allt kjötið hefur breytt um lit.
3. Setjið ristaða brauðteninga í stóra skál og færið kjötið af pönnunni yfir í skálina með gataspaða þannig að öll feiti verði eftir á pönnunni.
4. Bætið því sem eftir er af smjörinu á pönnuna og setjið eplabitana, laukinn og selleríið á hana. Látið grænmetið krauma í 5-7 mín. við vægan hita.
5. Bætið nú steinseljunni og kryddinu út í. Færið yfir í stóru skálina og bragðbætið ef þurfa þykir. Öllu blandað vel saman og kælt vel. Fyllinguna má laga daginn áður en kalkúninn er steiktur. Eins má baka hana sér í aflöngu formi, þá er lagður smurður álpappír yfir og bakað í 180°C heitum ofni í 1 klst.