Um Okkur
Undirflokkar:
Reykjabúið í Mosfellsbæ er elsta starfandi alifuglabú landsins. Það er fjölskyldubú í eigu Jóns Magnúsar Jónssonar og Kristínar Sverrisdóttur bænda á Reykjum. Höfuðstöðvar Reykjabúsins eru á bænum Suður-Reykjum í Mosfellsbæ í fallegu og gróðursælu umhverfi við rætur Reykjafjalls og eru þau Jón Magnús og Kristín þriðja kynslóðin sem ræktar þar fugla. Í dag er rekstur Reykjabúsins tvíþættur; annars vegar stofnrækt fyrir kalkúna og kjúklinga Ísfuglsbænda og hins vegar eldi kjúklinga og kalkúna. Á Reykjum er síðan heimasala sem selur kalkúnaafurðir beint til neytenda. Síðasta viðbótin við rekstur þeirra hjóna var svo þegar þau tóku alfarið yfir rekstur Ísfugls árið 2012. Ásamt því að búa með alifugla stundar fjölskyldan hestamennsku og á fáeinar kindur.
Starfsemi Reykjabúsins
Jón Magnús er fæddur á Suður-Reykjum þar sem fjölskylda hans hefur stundað alifuglarækt síðan á fyrri hluta síðustu aldar. Kristín er Reykvíkingur og kynntist sveitastörfum frá barnsaldri hjá móðursystur sinni á Oddgeirshólum í Flóa. Börn þeirra eru Hrefna, María Helga, Jón Magnús og Sverrir. Bæði stunduðu þau hjónin nám við framhaldsdeild Bændaskólans á Hvanneyri en Jón Magnús lauk svo BS-gráðu í alifuglarækt í Madison, Wisconsin í Bandaríkjunum. Kristín lauk aftur á móti BS-gráðu í almennri búfjárrækt frá Hvanneyri.
Reykjabúið framleiðir fyrst og fremst kalkúna- og kjúklingakjöt. Á Reykjum í Mosfellsbæ er haldinn kalkúna- og holdastofn til framleiðslu frjóeggja.
Í útungunarstöð Reykjabúsins að Flugumýri 18 í Mosfellsbæ er ungað út kalkúnum og kjúklingum til eigin framleiðslu og fyrir aðra bændur sem framleiða kjúklinga fyrir Ísfugl.
Reykjabúið hefur tekið á leigu ónotuð gripahús og innréttað fyrir fuglaeldi hjá nokkrum bændum.
Eldishús fyrir kalkúna og kjúklinga eru að mestu í Ölfusinu; á bæjunum Bakka, Auðsholti, Lambhaga og Hjalla. Einnig á Heiðarbæ II í Þingvallasveit, í Sandgerði, Helludal í Biskupstungum og Sætúni á Kjalarnesi. Starfsmenn Reykjabúsins eru fimmtán manns í misháum stöðugildum, að Jóni og Kristínu meðtöldum, og á álagstímum bætist í hópinn.
Ársframleiðsla Reykjabúsins er um 750 tonn af kjúklingi og 250 tonn af kalkún. Öllum fuglum Reykjabúsins er slátrað undir ströngu eftirliti heilbrigðisyfirvalda í sláturhúsi Ísfugls í Mosfellsbæ. Þar er allt kjöt unnið, pakkað og selt undir vörumerkjum Ísfugls. Reykjabúið er stærsti framleiðandi Ísfugls. Reykjabúið sér sjálft um að selja alla heila kalkúna.
Höfuðstöðvar búsins, skrifstofa og afgreiðsla er á Reykjum. Á Reykjum er einnig heimaverslun þar sem seldar eru ýmsar kalkúnaafurðir.
Kalkúnarnir Okkar
Eigendur Reykjabúsins leggja allan metnað sinn í að framleiða gæðavöru og standa heiðarlega að kjötframleiðslunni. Til þess að framleiða góða vöru þarf að huga vel að hreinlæti og velferð fuglanna. Kalkúnarnir okkar eru allir aldir upp á gólfi í litlum húsum þar sem bóndinn hefur góða yfirsýn yfir hópinn og smitálag er lítið. Við gætum sérstaklega að
hreinlæti og góðri umgengni hjá fuglunum, en stöðugt aðgengi þeirra að góðu fóðri og hreinu neysluvatni er nauðsynlegt. Við gefum fuglunum okkar ekki fúkkalyf eins og mikið er gert í kalkúnaeldi víða á meginlandi Evrópu. Lögð er áhersla á að vel sé farið með þá allt frá því þeir koma úr eggi og þar til þeim er slátrað.
Þar er hið góða og samviskusama starfsfólk sem Reykjabúið hefur á að skipa í lykilhlutverki. Starfsfólkið fær reglulega þjálfun og fræðslu þannig að það sé sem best í stakk búið til að sinna störfum sínum á búinu. Reykjabúið starfar undir ströngu eftirliti Matvælastofnunar.
Gæðastjórnun
Reykjabúið hefur sett upp öflugt gæðastjórnunarkerfi sem vottað er reglulega. Það auðveldar okkur að hafa stjórn á framleiðsluferlum innan fyrirtækisins og bregðast fljótt við vandamálum sem upp geta komið í búrekstrinum.
Reykjabúið starfar samkvæmt gæðahandbók í samræmi við reglugerðir, og hefur Matvælaeftirlitið umsjón með eftirliti með gæðastefnu. Mikilvægur hluti handbókarinnar er neðangreind gæðastefna. Við lítum á gæðahandbók og -stefnu sem mikilvæg verkfæri til að halda uppi gæðum í framleiðslu fyrirtækisins. Við gerð handbókarinnar nutu starfsmenn Reykjabúsins handleiðslu Rannsóknarþjónustunnar Sýnis.
Gæðastefna
Það er stefna okkar eigenda Reykjabúsins að uppfylla ávallt kröfur hins opinbera um starfsleyfi og rekstur búsins. Jafnframt leggjum við metnað okkar í að framleiða gæðavöru og standa heiðarlega að kjötframleiðslu okkar. Við leggjum okkur fram um að veita viðskiptavinum góða þjónustu og góðar upplýsingar um framleiðslu, eldun og innihald vörunnar.
Með því að nota viðurkennt og vottað gæðastjórnunarkerfi er auðveldara að hafa stjórn á framleiðsluferlum innan fyrirtækisins og bregðast fljótt við vandamálum og hættum sem geta komið upp í búrekstrinum. Við leggjum áherslu á að heilbrigði
fuglanna sé í fyrirrúmi, að velferð dýranna sé höfð að leiðarljósi og að vel sé farið með fuglana frá því þeir koma úr eggi og þar til þeim er slátrað. Séð er til þess að starfsfólk okkar sé þjálfað og frætt þannig að það sé sem best í stakk búið að sinna störfum sínum á búinu.
Við leggjum okkur eftir því að huga vel að umhverfismálum og starfa í góðri sátt og samlyndi við náttúru og okkar nánasta umhverfi. Við leggjum áherslu á að ganga snyrtilega um og vinnum stöðugt að endurbótum á mengunar- og umhverfismálum. Við flokkum sorp og úrgangsefni og erum stöðugt að bæta okkur í þeim efnum.
Umhverfisstefna
Við höfum tekið þá skýru stefnu að starfa í sátt og samlyndi við náttúruna og umhverfi okkar. Þetta er okkar áhugamál. Við erum smám saman að bæta allan rekstur til að fylgja þessu markmiði eftir. Þetta er að sjálfsögðu eilífðarverkefni, því alltaf má gera betur. Í gæðastefnu fyrirtækisins höfum við sett fram þau markmið að leggja áherslu á góða umgengni og vinnu að stöðugum endurbótum í mengunar- og umhverfismálum. Við flokkum sorp og nýtum allan skít frá búinu til uppgræðslu og áburðar.
Saga Reykjabúsins - stiklað á stóru
Suður-Reykir í Mosfellsbæ koma fyrst fyrir í heimildum árið 1180 og hefur verið ábúð þar síðan á miðöldum. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir að hjáleigur Suður-Reykja hafi verið þrjár: Reykjakot, Stekkjarkot og Amsturdammur. Síðar hefur svæðið verið nefnt Reykjahverfi „sunnan undir Reykjafjalli“ (m.a. í Lýsingu Mosfells- og Gufunesssókna frá 1855), og er svo í dag. Búskapur er enn að Reykjum, en hjáleigurnar eru nú íbúðahverfi og dýrahald þar takmarkað við hross, hunda, ketti og kannski eina og eina varphænu.
Þekking berst frá Vesturheimi
Löng hefð er fyrir fuglarækt á Reykjum. Stefán B. Jónsson átti jörðina og bjó þar á árunum 1907-1913. Hann hafði á árunum 1887-1899 búið í Kanada og kynnst þar alifuglarækt. Stefán var mikill framfarasinni og áhugamaður um alifuglarækt og fleira. Eitt af hans áhugamálum var að nýta jarðhita í Reykjahverfi, og var hann fyrstur Íslendinga til að leiða hitaveitu í íbúðarhús sitt að Suður-Reykjum. Árið 1901 skrifaði Stefán grein um hænsnarækt í blaðið Hlín: tímarit til eflingar verkfræðilegs og hagfræðilegs framkvæmdalífs á Íslandi, sem hann sjálfur út (1. tbl. s. 42-44).
Í greininni segir hann m.a að hænsna- eða alifuglarækt ætti að vera almennari og betur stunduð hér á landi en hingað til hafi verið. Hann hvetur gaf sjálfur út (1. tbl. s. 42-44). Í greininni segir hann m.a að hænsna- eða alifuglarækt ætti að vera almennari og betur stunduð hér á landi en hingað til hafi verið. Hann hvetur Íslendinga til að taka upp þennan hagkvæma búskap, og spyr í lok greinar: „Gefur nokkur búpeningur á Íslandi af sér árlega meira en svarar 180% af verði sínu, auk fóðurkostnaðar? – Eg held ekki, og sé svo, þá sinnið með alúð alifuglarækt meira en hingað til.“
Ef tekið er mið af skrifum um alifuglarækt fyrr á árum er ljóst að þekking á búgreininni hefur borist til Íslands frá Vesturheimi á síðustu árum 19. aldar. Alifuglarækt hefur þó verið stunduð hér frá landnámi í einhverjum mæli, og er þess getið í fornsögum; m.a. í sögu af gæsagæslu Grettis sterka Ásmundarsonar og í Hænsa-Þóris sögu.
Brautryðjendur að Suður-Reykjum
Á Suður-Reykjum í Mosfellsbæ er löng saga alifuglaræktar og þar er elsta bú landsins í greininni. Suður-Reykir hafa verið í eigu sömu fjölskyldna frá því árið 1916 þegar Guðmundur Jónsson, afi Jóns Magnúsar Jónssonar, núverandi ábúanda, keypti jörðina. Stórbýli hefur verið rekið þar síðan um 1930, og má segja að stöðug uppbygging hafi átt sér stað á búinu allt frá því Guðmundur handsalaði kaupin á jörðinni.
Reykjabúið er fjölskyldubú þar sem þekking og framþróun eru lykilatriði í rekstrinum. Búið er brautryðjandi í alifuglarækt á Íslandi. Þar hófst kjúklingarækt árið 1946 og kalkúnarækt í tilraunaskyni 1947. Stuttu síðar var farið að framleiða daggamla unga til sölu, og því má með sanni segja að reksturinn standi föstum fótum á reynslu, þekkingu og framsýni.
Umhverfismál skipa æ stærri sess í búrekstri, og á því sviði hafa Reykjabændur metnað til að vera til fyrirmyndar. Nýverið var tekin í notkun gæðastefna Reykjabúsins sem vísar veginn á því sviði í alifuglarækt.
Stiklur í sögu Reykjabúsins
- 1916
- 1926
- 1946
- 1947
- 1949
- 1959
- 1959
- 1960
- 1961
- 1962
- 1963
- 1966
- 1979
- 1983
- 1984
- 1987
- 1989
- 1990
- 1993
- 1995
- 1998
- 1999
- 2005
- 2010
- 2012
- 2014