Þyngd fugls
Matargestir
Merking á umbúðum
Litamerking

Kalkúnar eru vinsælir á veisluborðum hér á landi og henta mjög vel þar sem margir eru í mat. Kalkúnar frá Reykjabúinu eru frá 3 til 15 kíló, algengasta stærðin er þó í um 5 til 6 kíló. Heill kalkúnn frá Reykjabúinu er hreint kjöt og án allra aukaefna.
Sumir kjósa að fylla ekki kalkúninn. Aðrir kjósa að skera í bita ávexti og lauk og setja inn í hann í stað fyllingar. Það gefur örlítið bragð í kjötið.
Steikja skal ófylltan kalkún eins og þann fyllta. En athuga skal þó að steikingartíminn er styttri en á fylltum kalkún.
Eitt af því sem gerir matreiðslu á kalkún skemmtilega er að hægt er að fylla hann á fjölbreyttan hátt.
Fyllingu má útbúa daginn áður og geyma í kæli – og einnig er hægt að útbúa sumar tegundir fyllinga ennþá fyrr og geyma í frysti. Gott er að útbúa ríflegan skammt af fyllingu og baka það sem ekki fer inn í fuglinn í ofnföstu formi í 40-50 mín. og bera síðan fram ásamt öðru meðlæti.
Það er glæsilegt að bera fuglinn fram í heilu lagi. Gott er að sneiða bringuna niður fyrst til þess að fá sem besta nýtingu á kjötinu. Byrjið á því að skera hvorn bringuhelming frá beini í heilu lagi. Skerið síðan bringuna í þunnar sneiðar þvert á vöðvann. Raðið sneiðunum aftur upp á bringubeinið. Skerið síðan læri og vængi eftir að fuglinn hefur verið borinn fram.
Það er notalegt til þess að hugsa að daginn eftir kalkúnaveisluna er hægt að hita upp afganga. Einfaldast er að setja niðurskorið kjöt á fat, breiða yfir það álpappír og hita kjötið upp í ofni á meðan sósan er hituð í potti. Þá er aftur tilbúin veislumáltíð með lítilli fyrirhöfn.
Kryddið fuglinn vel sólarhring áður en hann er eldaður. Einnig má leggja hann í kryddpækil. Olían verður að vera heit (kraumandi) eins og í kleinupotti og hitinn má ekki detta mikið niður þegar fuglinn er settur ofan í feitina.